Hagnýtar upplýsingar í skólabyrjun

Nú líður að skólabyrjun og því höfum við tekið saman nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.
Fyrsti skóladagur
Fimmtudaginn 21. ágúst verða nemendur og foreldrar boðaðir til umsjónarkennara. Gert verður ráð fyrir að nemendur og foreldrar mæti í nokkrum fámennum hópum fyrir hádegi. Þar fá nemendur afhentar stundatöflur, hópaskiptingar og fá nánari upplýsingar um skólastarfið. Nánari tímasetningar berast foreldrum í byrjun næstu viku.
Kennsla hefst síðan skv. stundatöflu föstudaginn 22. ágúst.
Sundkennsla byrjar mánudaginn 25. ágúst en nemendur fá sundhópa hjá umsjónarkennurum. Sundkennsla fer öll fram í Dalslaug. Vinsamlegast athugið að nemendur þurfa að mæta með sundföt en ekki er hægt að fá lánuð sundföt. Sundfatnaður á að vera þannig að hann hefti ekki sundtök og hreyfingar í vatni.
Innkaup á ritföngum
Ritföng eru gjaldfrjáls í öllum grunnskólum borgarinnar og því fá nemendur öll nauðsynleg kennslugögn í skólanum upp að ákveðnu marki og minnum við á að ganga vel um gögnin sín. Nemendur þurfa því einungis að eiga skriffæri (blýanta, penna, liti) til að nota heima við.
Matarskráning
Hádegisverður í grunnskólum Reykjavíkurborgar er gjaldfrjáls.
Þrátt fyrir að foreldrar þurfi ekki lengur að greiða fyrir hádegisverðinn þurfa allir að vera skráðir í mat sem vilja borða í mötuneytinu. Við biðjum því foreldra um að skrá nemendur í mat sem vilja vera í mat.
Þeir nemendur sem voru í mat á síðasta skólaári verða sjálfkrafa í mat á þessu skólaári. Til að skrá nýja nemendur í mat þarf að fara í gegnum nýjan matarvef: https://matur.vala.is/umsokn . Sama leið er farin til að skrá nemendur úr mat.
Eins og undanfarin ár bjóðum við nemendum upp á hafragraut gjaldfrjálst á morgnana, kl. 8:00-8:30, frá og með föstudeginum 22. ágúst. Nemendur þurfa að mæta með vatnsbrúsa með sér í skólann. Einnig óskum við eftir að nemendur komi með nesti í fjölnota nestisboxum og munu þeir taka afgangsnesti með sér heim, en með því móti geta foreldrar betur fylgst með hvað börn þeirra borða af nestinu.
Skápar
Nemendum 2.-10. bekkjar er úthlutað skápum sem staðsettir eru í anddyri skólans. Skáparnir eru ólæstir en nemendur geta komið með lása að heiman til að nota í skólanum.
Nemendur 1. bekkjar eru með aðstöðu í fatahengi við 1. bekkjar stofuna.
Íþróttir
Fyrstu vikurnar mun íþróttakennsla fara að mestu leyti fram utandyra og nemendur þurfa því að klæða sig eftir veðri og passa að fötin séu þægileg og gott að hreyfa sig í þeim. Að sjálfsögðu er boðið uppá það að klæða sig í búningsklefum fyrir tímana. Ef veður er leiðinlegt þá færum við okkur inn í sal.
Þegar kennsla færist inn í íþróttahús þurfa nemendur að vera í íþróttafatnaði og íþróttaskóm að undanskyldum 1.-2. bekk sem verða skólaus í tímum. Yngstu krakkarnir mega mæta í tátiljum en það er eins og fyrr segir ekki leyfilegt að vera í skóm.
Hjól og hlaupahjól
Aðstaða til að læsa hjólum og hlaupahjólum er á skólalóð. Hægt að geyma þau þar yfir skóladaginn á ábyrgð foreldra og nemenda. Ekki er aðstaða til að geyma fararskjótana inni í skólanum. Minnum á að ekki er í boði að vera á hjólum eða öðrum fararskjótum á skólalóð á skólatíma í öryggisskyni.
Aðstandendaupplýsingar í Mentor
Mikilvægt er að aðstandendaupplýsingar í Mentor séu réttar og því þurfa foreldra/forráðamenn að uppfæra þær ef einhverjar breytingar hafa orðið á símanúmerum, netföngum o.s.frv. Aðstandendur geta gert þetta sjálfir í Mentor en einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu á netfangið ingunnarskoli@reykjavik.is eða í síma 411-7828.
Yngri barna kór
Boðið verður upp á kórastarf á skólatíma fyrir nemendur 2. - 4. bekkjar í vetur og hefst það starf í september. Jóhanna Halldórsdóttir TTS-kennari og kórstjóri mun senda foreldrum upplýsingar þegar nær dregur.
Valgreinar 8.-10. bekkur
Haldið verður áfram með nýtt fyrirkomulag á valgreinum í unglingadeild Ingunnarskóla þar sem allir nemendur munu stunda áhugatengt nám. Athygli er vakin á að nemendur geta ekki fengið tómstundir utan skóla metnar sem valgrein eins og verið hefur undanfarin ár. En nemendur geta aðlagað tómstundir að skipulaginu.
Nemendur þurfa að gera ráð fyrir að skóladegi þeirra ljúki klukkan 15:05 á mánudögum þegar áhugatengt nám verður á stundatöflu. Einnig er gert ráð fyrir sjálfstæðri vinnu á miðvikudögum og fimmtudögum en þeirri vinnu er hægt að sinna heima við (frjáls viðvera).
Helstu ástæður breytinganna eru til að koma betur til móts við ólíkar þarfir nemenda okkar, seinkun skóladagsins ásamt fækkun nemenda.
Nemendur fá kynningu á fyrirkomulaginu í skólanum fljótlega eftir að kennsla hefst og fylla út áhugasviðskönnun.
Umsjónarkennarar
Í vetur verða einn til tveir umsjónarkennarar í hverjum árgangi sem saman utan um nemendahópinn og foreldrasamskipti.
1. bekkur Fjóla Kristjánsdóttir og Írena Sif Kristmundsdóttir
2. bekkur Fríða Dögg Finnsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir
3. bekkur Berglind Snorradóttir og Erla Mekkín Jónsdóttir
4. bekkur María Skúladóttir og Signý Ólafsdóttir
5. bekkur Ólafía Guðbjörg Gústafsdóttir
6. bekkur Alma Rut Sigmundardóttir og Hulda Dagmar Magnúsdóttir
7. bekkur Alda Ólafsdóttir og Hjalti Einar Sigurbjörnsson
8. bekkur Erna Björg Guðlaugsdóttir og Guðrún Þóra Bjarnadóttir
9. bekkur Þuríður Aðalsteinsdóttir
10. bekkur Bjarni Sævar Þórsson og Sigurlaug Hauksdóttir
Heimasíða Ingunnarskóla
Hægt er að finna allar helstu upplýsingar varðandi skólann á heimasíðunni, https://ingunnarskoli.reykjavik.is/
Allar upplýsingar varðandi skólabyrjun verða einnig settar á facebook-síðu Ingunnarskóla: https://www.facebook.com/profile.php?id=100054196043869
Einnig munum við senda allar upplýsingar til foreldra í tölvupósti í gegnum Mentor.
Forfallatilkynningar
Veikindi eða stutt leyfi skulu forráðamenn eða aðstandendur tilkynna áður en kennslustund hefst og síðan daglega á skrifstofu skólans í síma 411-7828 eða á netfangið ingunnarskoli@reykjavik.is . Einnig er hægt að tilkynna veikindi og leyfi í gegnum foreldraaðgang í Mentor.
Opnunartími skólans og upphaf kennslu
Skiptiborð skólans er opið frá kl. 7:45 - 14:30 en skólahúsnæðið opnar kl. 8:00. Í hádeginu er skiptiborðið lokað milli kl. 12:00-12:40.
Boðið verður upp á gæslu fyrir nemendur 1.-6. bekkjar frá kl. 8:00 inni á svæðum.
Kennsla hefst hjá 1.-7.bekk klukkan 8:30 nema á föstudögum þegar nemendur byrja kl. 8:50.
8.-10. bekkur byrjar klukkan 8:50.
Við hlökkum til að hefja skólaárið og hitta nemendur fimmtudaginn 21. ágúst.